FerminginAllt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. (Matt. 28.18-20). |
Ferming er alltaf stór stund í lífi hvers ungmennis og fermingarfræðslan gott veganesti út í lífið. Við leggjum okkur fram um að gera fermingarveturinn eftirminnilegan, þroskandi og innihaldsríkan og verður boðið upp á fjölmarga skemmtilega viðburði líkt og fermingarferð í Vatnaskóg. Það eru fræðslutímar í hverri viku yfir veturinn og er viðfangsefnið þar fyrst og fremst kærleiksboðskapur Jesú og grunnatriði kristinnar trúar. Einnig er rík áhersla á sjálfstyrkingu, hópefli og lifandi fræðslu. Orðið ferming merkir að staðfesta. Fermingin er staðfesting á skírnarheitinu þar sem fermingarbarn játar að vilja gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns. Fermingin sjálf er hátíðleg athöfn þar sem hvert fermingarbarn stígur fram og krýpur við altarið. Þar fer fermingarbarnið með ritningarorð sem það hefur valið sér og presturinn biður fyrir því og blessar það. |